Tveir hinna slösuðu sem lentu í rútuslysinu á Þingvallavegi eru á gjörgæslu. Samtals voru 17 fluttir á bráðamóttöku Landspítalans eftir slysið. Upphaflega komu upplýsingar um að 5-7 væru alvarlega slasaðir, en Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Landspítalans, staðfestir í samtali við mbl.is að aðeins tveir hafi verið fluttir á gjörgæslu.
Enginn hinna 17 sem komu á spítalann hefur enn verið útskrifaður.
Guðný segir að þegar tilkynnt hafi verið um slysið hafi viðbragðsáætlun spítalans verið virkjuð. Í því felist meðal annars að kallað sé út aukastarfsfólk og fylgt sé ákveðnu verklagi sem geri meðal annars ráð fyrir fjöldaslysum.
Klukkan 15.30 var búið að opna Þingvallaveg fyrir umferð á ný.