Tveir hinna slösuðu sem lentu í rútuslysinu á Þingvallavegi eru á gjörgæslu. Samtals voru 17 fluttir á bráðamóttöku Landspítalans eftir slysið. Upphaflega komu upplýsingar um að 5-7 væru alvarlega slasaðir, en Guðný Helga Herbertsdóttir, upplýsingafulltrúi Landspítalans, staðfestir í samtali við mbl.is að aðeins tveir hafi verið fluttir á gjörgæslu.
Rútan fór á hliðina upp úr klukkan tíu í morgun vestan undir Litla-Sauðafelli, skammt frá Skálafellsafleggjaranum. Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð fljótlega eftir að tilkynnt var um slysið í morgun.
Aðgerðastjórn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur þá einnig verið virkjuð og Landspítalinn settur á gult viðbúnaðarstig.
Lögreglan ítrekar að þeir sem kunni að hafa tekið upp farþega á svæðinu láti tafarlaust vita af því í síma Neyðarlínunnar 112. Lögreglan segir mjög áríðandi að þessar upplýsingar komi strax fram svo hægt sé að tryggja að allir sem voru um borð í rútunni séu komnir i leitirnar.